Saga Hlégarðs
Á vorfundi Mosfellshrepps árið 1947 var tekin ákvörðun um að byggingu Hlégarðs því húsnæðið sem áður var notað undir samkomur Mosfellinga þótti orðið allt of lítið og því var mikil þörf fyrir að reisa nýtt félagsheimili. Strax var ákveðið að leitað yrði eftir samvinnu við Kvenfélag Lágafellssóknar og Ungmennafélagið Aftureldingu.
Húsið er mjög haglega teiknað og hefur góða aðkomu en arkitekt þess var Gísli Halldórsson. Hið nýja félagsheimili Mosfellinga var vígt við hátíðlega athöfn þann 17. mars 1951.
Laxness ánægður með nafn hússins
Nóbelskáldið og Mosfellingurinn Halldór Laxness hampaði nafni Hlégarðs í vígsluræðu sinni um húsið. Þar sagði hann meðal annars:
„Mér þykir viðkunnanlegt nafnið sem þetta félagshús hefur hlotið, það mætti verða sannnefni á tvennan hátt, í fyrsta lagi vegna þess að húsið er eftir smekk nútímans reist niður í dæld eða lág, í hléi fyrir mesta vindinum, eða að minsta kosti í meira hléi en ef það hefði verið sett uppá hól eins og fornmenn voru vanir að setja hús sín; og í öðru lagi á slíkt hús sem þetta að vera sveitúngum skjól og afdrep sem þeir leiti til úr stormviðrum hversdagslífsins og finni skemmtun og menntun: Hlégarður.“
Ógleymanlegir viðburðir og sveitaböll
Félagslífið í Mosfellsveit blómstaði með tilkomu nýs félagsheimilis og hafa margar skemmtanir verið haldnar í Hlégarði og staðurinn var lengi vel þekktur fyrir sveitaböll sem þar voru haldin. Leikfélag Mosfellsveitar sýndi áður fyrr leikrit í húsinu og margir menningarviðburðir hafa verið haldnir þar í gegnum tíðina. Á sjötta áratugnum var Hlégarður eitt stærsta samkomuhús á Stór-Reykjarvíkursvæðinu og var því oft þétt bókað. Húsið var stækkað með viðbyggingu á níunda áratugnum.
Hlégarður hefur ævinlega endurspeglað mannlífið í bænum.